Innlent

Búið að rýma húsin í Bolungarvík

Snjóflóð féll á hús við Dísarland árið 1997.
Snjóflóð féll á hús við Dísarland árið 1997.
Búið er að rýma þau hús í Bolungarvík sem gætu verið í hættu vegna snjóflóðs, segir lögreglan á Vestfjörðum.

Veðurstofan og lögreglustjórinn á Vestfjörðum lýstu yfir hættustigi í Bolungarvík fyrr í kvöld og var svokallaður reitur 4 rýmdur, en það eru hús að Ljósalandi 2, Traðarlandi 18, 21, 22 og Tröð.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ástæða rýmingar sé vegna þess að talsverð snjókoma hafi verið í Bolungarvík í dag í nánast logni og mælist úrkoma rúmir 20 millimetrar frá því í gærkvöldi. Spáð er hvassri norðaustan átt í fyrramálið en um tíma í kvöld, milli klukkan níu og tólf gæti verið norðvestan 8-12 m/s.

Lögreglan á Vestfjörðum segir að aðstæður séu ekki ósvipaðar og þær voru 21 febrúar 1997. Þá var mikill lausasnjór áður en það hvessti af norðaustan. Í byrjun þess veðurs fluttist snjór með hlíð Traðarhyrnunnar og snjóflóð féll á hús við Dísarland.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu gekk rýming húsanna vel þó að fólk hafi verið misjafnlega ánægt með að þurfa að yfirgefa húsin sín.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×