Innlent

OR gekk að tilboði Magma í HS Orku

Niðurstaða viðræðna á vegum stjórnvalda um möguleg kaup á meirihluta hlutafjár í HS Orku á að liggja fyrir á næstu vikum.fréttablaðið/valli
Niðurstaða viðræðna á vegum stjórnvalda um möguleg kaup á meirihluta hlutafjár í HS Orku á að liggja fyrir á næstu vikum.fréttablaðið/valli

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í gær að ganga að tilboði kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy um kaup á þriðjungshlut í HS Orku. Stjórnvöld ætla að freista þess að kaupa meirihluta hlutafjár í fyrirtækinu til að tryggja opinbera eigu þess, en hafa ekki rætt við eigandann Geysi Green Energy.

Samningurinn var samþykktur með fjórum atkvæðum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í stjórn Orkuveitunnar gegn tveimur atkvæðum Samfylkingar og Vinstri grænna. Minnihlutinn gagnrýnir harðlega hvernig staðið var að sölunni. Lítill tími hafi verið gefinn til að kynna samninginn og að aðeins verði greitt fyrir 30 prósent í reiðufé. Einnig að greiðsla 70 prósenta af tólf milljarða kaupverði komi ekki fyrr en að sjö árum liðnum. Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi Vinstri grænna, segir í bókun sinni að salan ryðji brautina fyrir einkavæðingu alls einkageirans.

Fundað var í fjármálaráðuneytinu í gærmorgun vegna tilboðs Magma Energy. Var þar látið reyna á hvort innlendir aðilar myndu bjóða í hlutinn. Ekki varð af því og sendi fjármálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið frá sér sameiginlega fréttatilkynningu þess efnis að viðræðuhópur yrði settur á fót til að kanna forsendur þess að ganga til samninga við núverandi eigendur fyrirtækisins um kaup á meirihluta í félaginu. Hópurinn verður skipaður af ríkinu, lífeyrissjóðunum, Grindavíkurbæ og öðrum sem hafa komið að hugsanlegum kaupum á hlutum í HS Orku. Geysir Green Energy á nú 55 prósenta hlut í HS Orku.

Eyjólfur Árni Rafnsson, stjórnarformaður GGE, segir að fyrirtækið muni koma að viðræðum um sölu á hlut fyrirtækisins með opnum huga. Hins vegar hafi ekki verið leitað til stjórnar fyrirtækisins um hugsanleg kaup opinberra aðila.

Í fréttatilkynningu ráðuneytanna segir að stjórnvöld leggi áherslu á aðkomu sterkra eigenda að HS Orku svo fyrirtækið geti áfram gegnt mikilvægu samfélagslegu hlutverki.

Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka lífeyrissjóða, segir að lífeyrissjóðirnir séu tilbúnir til að skoða kaup á hlut í HS Orku. „Þetta kemur til greina sem fjárfestingarkostur af okkar hálfu, en lengra er málið ekki komið.“

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að til greina kæmi að leita til almennings um kaupin á meirihluta í HS Orku.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×