Erlent

Tilkynningar að vænta um brottflutning frá Írak

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Búist er við að Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynni í dag að allt nær allt bandarískt herlið verði komið heim frá Írak í ágúst á næsta ári. Þriðjungur verði eftir til að þjálfa íraska herinn.

Það er í samræmi við kosningaloforð Obama. Búist er við að forsetinn tilkynni um heimkvaðninguna á fundi á herstöð í Norður Karólínuríki síðar í dag. Heimildir Reuters fréttastofunnar herma að Obama hafi greint þingmönnum frá áformum sínum í gær og þar hafi komið fram að á bilinu þrjátíu og fimm til fimmtíu þúsund hermenn verði eftir til að sjá um að þjálfa íraska hermenn og stjórna aðgerðum þeirra gegn hryðjuverka- og andspyrnumönnum. Hundrað fjörutíu og tvö þúsund bandarískir hermenn eru nú í Írak.

Obama hét því í kosningabaráttunni að fjölga í herliði Bandaríkjamanna í Afganistan svo taka mætti að meiri festu á aðgerðum þar gegn Talíbönum. Búast má við að margir þeirra hermanna sem kallaðir verða heim frá Írak verði síðan sendir til Afganistans en Obama tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann ætlaði að fjölga í herliðinu þar um sem nemur sautján þúsund hermönnum.

Sérfræðingar segja Obama fara milliveginn þegar kemur að heimkvaðningunni. Hún gangi nokkuð hægar en yfirlýsingar í kosningabaráttunni bentu til en nokkuð hraðar er hernaðarráðgjafar hefðu viljað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×