Innlent

Vilja halda prestinum sínum

Karen Kjartansdóttir skrifar

Mikil óánægja ríkir á Selfossi með ákvörðun Kirkjuþings um að sameina Hraungerðis- og Selfossprestaköll. Stofnaður hefur verið hópur sem krefst þess að fallið verði frá ákvörðuninni.

„Við viljum sr. Óskar áfram í Selfossprestakalli" er yfirskrift áskorunar sem íbúar safna stuðningi við á Selfossi. Hópurinn sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni segir íbúa Selfoss afar óánægða með ákvörðun Kirkjuþings um að sameina prestaköllin á Selfossi og svo í Hraungerðisprestakalli frá og með 30. nóvember.

Ástæðan fyrir óánægjunni segir Dóra Þórsdóttir einn stofnenda stuðningshópsins er sú að ákvörðunin hefur það í för með sér að Selfyssingar missa prestinn sinn séra Óskar H. Óskarsson en séra Kristinn Friðfinnsson, prestur í Hraungerðisprestakalli verður sóknarprestur í sameinuðu prestakalli.

Dóra segir mikla ánægju ríkja á Selfossi með störf Óskars og vilji bæjarbúar að hann fái að sækja um stöðu sóknarprests.

Undirskriftarlistar liggja frammi á bensínstöðvum Olís og N1 og á samskiptavefnum Facebook höfðu 859 lýst yfir stuðningi við málið fyrir hádegisfréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×