Innlent

Hvalveiðar Íslands ekki gagnrýndar í Alþjóða Hvalveiðiráðinu

Guðjón Helgason skrifar

Framtíð Alþjóða hvalveiðiráðsins hangir á bláþræði. Þær þjóðir í ráðinu sem eru andsnúnar og hlynntar hvalveiðum fá eitt ár til að ná sáttum ellegar þurfi að hugsa starfsemi ráðsins alveg upp á nýtt. Aðalfulltrúi Íslands í ráðinu segir sáttatón ríkja á aðalfundi þess. Hvalveiðar Íslendinga hafi ekki verið gagnrýndar.

 

Fyrir ársfund ráðsins sem hófst í Portúgal á mánudaginn og lýkur á morgun tókst ekki að ná málamiðlum milli þeirra aðildarþjóða sem veiða hvali og þeirra þjóða sem eru andsnúnar slíkum veiðum. Ýmislegt hefur verið rætt, meðal annars aukin strandveiði í skiptum fyrir minni úthafsveiði á hvölum. Lykilríkjum í ráðinu, þar á meðal Íslandi, hefur verið falið að sætta ólík sjónarmið fyrir ársfundinn að ári.

 

William Hogarth, formaður Alþjóðahvalveiðiráðsins, telur að allir sjái að aðeins sé eitt ár til stefnu. Vitað sé að Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir hafi miðað við 2010. Ef ekkert sé klárað fyrir þann tíma sé málinu lokið og horfa þurfi til framtíðarskipulags ráðsins.

 

Sue Liberman, talskona umhverfisverndarsamtakanna World Wildlife Fund, er ekki jafn viss. Þó ekki takist að sætta stríðandi fylkingar í Alþjóða hvalveiðiráðinu innan árs sé ráðið ekki dautt. Það muni haltra áfram eins og hún orðar það.

 

Tómas H. Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu segir að ráðið hafi verið nær óstarfhæft um nokkurt skeið. Hann segir að hvalveiðar Íslendinga hafi ekki verið gagnrýndar á ársfundinum nú og það í samræmi við þann anda sem hafi ríkt á ársfundinum. Fundarmenn hafi reynt að fara sáttarleiðir og undirbúið það starf sem framundan sé þar sem eigi að reyna að bjarga framtíð ráðsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×