Innlent

Kryddsíld 2009 í beinni á Vísi

Kryddsíldin fer í loftið á Stöð 2 í dag klukkan tvö. Þetta er í 19. sinn sem forystumenn stjórnmálaflokkanna mæta til þess að fara yfir liðið ár en fyrsta Kryddsíldin var árið 1990 á fjögurra ára afmæli stöðvarinnar.

Í þættinum munu forystumenn flokkanna hittast í fyrsta sinn allir við sama borð í sjónvarpi frá kosningum. Annað markvert við þáttinn í ár er að þau Steingrímur J. Sigfússon formaður VG og Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar eru þau einu sem hafa mætt í þáttinn áður, en Jóhanna Sigurðardóttir mætti fyrr á árum sem formaður Þjóðvaka.

Auk þeirra verða í þættinum Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni. Einnig hefur Þráinn Bertelsson boðað komu sína en hann er utan flokka á þingi.

Í þáttinn mæta einnig nokkrir fulltrúar fólks utan stjórnmála sem hafa látið sig þjóðmálaumræðuna varða á síðustu misserum. Það eru þau Björn Þorri Viktorsson lögmaður, Margrét Pétursdóttir verkakona, Margrét Kristmannsdóttir athafnakona og Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP.

Einnig er hægt að horfa á Kryddsíldina á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×