Innlent

Stjórnarandstaða efast um álit Seðlabankans

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Stjórnarandstaðan vill að hagfræðistofnun Háskóla Íslands geri óháða úttekt á fylgigögnum fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands, í skýrslu um Icesave-málið. Þetta kemur fram í sameiginlegri beiðni minnihlutans í fjárlaganefnd um frekari rannsókn, gögn og gesti sem stjórnar­andstaðan lagði sameiginlega fram á fundi nefndarinnar í gær.

Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, segir fyllstu ástæðu til að hlutlaus aðili skoði álit Seðlabankans og þann talnagrunn sem þar er notaður. Spurður hvort Seðlabankinn sé ekki hlutlaus, segir hann svo vera. En fyllsta ástæða sé til að rýna í allt. Álitið hafi verið unnið af miklum hraða og þar séu ýmis álitaefni.

Stjórnarandstaðan leggur einnig til að Davíð Oddsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra, verði boðaðir á fund nefndarinnar til að hægt sé að varpa ljósi á hvort íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig til greiðslu vegna Icesave-samninganna í kringum bankahrunið.

Þá vill stjórnarandstaðan fá fleiri gesti á sinn fund, meðal annars til að ræða hugmyndir Ragnars Hall og Eiríks Tómassonar. Þá óskar minnihlutinn eftir ýmsum gögnum, bæði innlendum og erlendum. Kristján segir að til dæmis hafi ekki borist svör frá Seðlabankanum við skriflegum spurningum.

„Þetta er óskalisti miðað við stöðuna eins og hún var í morgun [í gær] og við óskum eftir að stjórnarmeirihlutinn taki tillit til hans," segir Kristján. Listinn er tilkominn að ósk formanns nefndarinnar, Guðbjarts Hannessonar, frá því fyrir helgi.

Guðbjartur segir að reynt sé að ná samstöðu um afgreiðslu nefndarinnar og mikilvægt sé að stjórnarandstaðan axli sameiginlega ábyrgð vegna málsins. Hann segir að reynt verði að koma til móts við beiðni stjórnarandstöðunnar að einhverju leyti.

Heimildir Fréttablaðsins herma hins vegar að æ minni líkur séu á að samstaða náist um málið á þingi. Því sé það stjórnarinnar að staðfesta frumvarpið, gegn vilja stjórnarandstöðunnar.- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×