Innlent

Vonbrigði segir orkumálastjóri

Erfiðir tímar Aðeins ein umsókn um rannsókn og vinnslu á Drekasvæðinu stendur eftir, segir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.
Erfiðir tímar Aðeins ein umsókn um rannsókn og vinnslu á Drekasvæðinu stendur eftir, segir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.
Annað tveggja fyrirtækja sem sótti um leyfi til rannsókna og vinnslu olíu á Drekasvæðinu hefur dregið umsókn sína til baka.

Orkumálastofnun barst í gær bréf frá forsvarsmönnum Aker Exploration, þar sem þeir draga umsókn sína frá því í maí síðastliðnum til baka. Í bréfinu segir að ákvörðunin komi í kjölfar breytinga á stefnu fyrirtækisins. Orkustofnun hefur engar frekari upplýsingar fengið, segir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.

„Við vissum auðvitað þegar við buðum þetta út í vor að þetta eru erfiðir tímar. Við vorum ánægðir með að fá tvö tilboð, en auðvitað eru það vonbrigði að annað fyrirtækið detti út," segir Guðni.

Fyrirtækin Sagex Petroleum og Lindir Explorations buðu í sameiningu í leyfi til rannsókna og vinnslu eins og Aker, en á öðru svæði. Umsókn þeirra stendur óhögguð.

Guðni segir að Orkumálastofnun fjalli nú um umsókn Sagex og Linda. Vonir standi til að samningar náist í október. Í framhaldinu verði tekin afstaða til þess hvort leit og vinnsla á Drekasvæðinu verði boðin út að nýju.

Fleiri fyrirtæki lýstu í vor áhuga á að sækja um leyfi, en féllu frá því að sækja um vegna erfiðs ástands á fjármálamörkuðum, segir Guðni.

Ekki náðist í forsvarsmenn Aker Explorations í gær.

- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×