Erlent

Einhleypum best borgið í New York

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP

New York er heppilegasta borg Bandaríkjanna fyrir einhleypa. Þar með hefur Atlanta verið rutt úr toppsætinu en hún hreppti hnossið í síðustu athugun á því hvar einhleypum liði best. Um er að ræða könnun sem náði til 40 borga í Bandaríkjunum og litu rannsakendur meðal annars til þess hver kostnaðurinn við að búa einn eða ein er á hverjum stað, menningar, atvinnumöguleika, stefnumótaþjónustu, næturlífs og svo framvegis.

Reyndar var það hin öfluga netstefnumótaþjónusta New York sem reið baggamuninn en hvergi í Bandaríkjunum blómstrar slík starfsemi líkt og þar. Þá benda aðstandendur könnunarinnar á að eftir fjármálahrunið séu New York-búar hvergi nærri eins uppteknir af peningum og áður en sá þáttur ráði einmitt heilmiklu um hvað þeir kjósa að verja frítímanum í. Fast á hæla stóra eplisins fylgdu Boston, Chicago, Seattle og Washington en Atlanta, sem áður vermdi toppsætið, varð að gera sér að góðu að hafna í sjötta sæti að þessu sinni. Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×