Innlent

Hlaupa hundrað kílómetra til styrktar Mæðrastyrksnefnd

Félagarnir Geir, Ari og Evert eru þrír af þeim þrettán sem ætla að hlaupa 100 kílómetra á fimmtudaginn.
Félagarnir Geir, Ari og Evert eru þrír af þeim þrettán sem ætla að hlaupa 100 kílómetra á fimmtudaginn. Mynd/Anton Brink

Þrettán félagar úr CrossFit Iceland munu hlaupa 100 kílómetra á fimmtudaginn til styrktar Mæðrastyrksnefnd. Leggja þeir af stað frá Skipaskaga klukkan fimm um morguninn, hlaupa meðfram Akrafjalli, hringinn í Hvalfirði og enda í Reykjavík.

Ekki er um boðhlaup að ræða heldur hlaupa þau samtals 1.300 kílómetra. En eruð þið í formi til þess að hlaupa 100 kílómetra?

„Já, við teljum okkur vera það. Það er auðvitað ekki hægt að vita fyrr en við erum búin að hlaupa,“ segir Ari Bragi Kárason, einn ofurhuganna, kátur. Þeir hafa þegar safnað áheitum frá Herbalife, World Class og EAS, að sögn Ara, en treysta annars á frjáls framlög.

Endastöð hlaupsins verður World Class í Laugum Laugardal og er stefnt að því að hlaupinu ljúki um klukkan 19.30. Áhugasamir geta komið og tekið þátt í að hlaupa síðustu 15 kílómetrana frá Korputorgi klukkan 17 og styðja við bakið á ofurhugunum. Farið verður inn í Laugardalinn þar sem móttökulið bíður þeirra og slegið verður upp grillveislu.

Þeir sem styrkja vilja ofurhugana í ferð þeirra er bent á að hægt er að leggja inn á reikning Mæðrastyrksnefndar. Reikningsnúmerið er 0101-26-35021 og kennitalan er 470269-1119.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×