Erlent

Fljúgandi furðuhlutir enn á ferð í Bretlandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ekkert lát virðist vera á fljúgandi furðuhlutum yfir Bretlandi en tveir slíkir sáust í gærkvöldi.

Eigi Bretar ekki heimsmet í fjölda tilkynninga um óþekkta hluti á flugi yfir landinu hljóta þeir að minnsta kosti að vera býsna nærri því. Síðustu misseri hafa myndir og tilkynningar um slíka hluti streymt til breska varnarmálaráðuneytisins og þarlendra fjölmiðla og í gærkvöldi kom enn eitt slíkt tilfelli upp, að þessu sinni yfir Hertfordskíri á Suðaustur-Englandi.

Það voru hjónin Diane og Andy Prior sem komu auga á tvo hringlaga hluti sem flugu um skafheiðan kvöldhimininn þar sem þau voru að viðra hund sinn klukkan tæplega ellefu í gærkvöldi. Hlutirnir fylgdust að og sveigðu með að því er virtist skipulögðum hætti ýmist til hægri eða vinstri. Hjónin náðu ágætri mynd af öðrum hlutnum og er hún svo sannfærandi að breska varnarmálaráðuneytið segist nú vera að kanna hvort hugsanlegt sé að flugfar af óþekktum uppruna hafi verið á ferð í breskri lofthelgi í gærkvöldi.

Ekki eru nema fáir mánuðir síðan skrifstofumaður tók myndband af sívalningslaga hlut sem sveif yfir Wales og margir aðrir hlutir hafa sést yfir Bretlandi síðasta árið. Óvíst er hvað dregur þennan fjölda furðuhluta að landinu en varla er það blómlegt efnahagsástand.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×