Innlent

Rannsaka ímynd Íslands í kjölfar bankahrunsins

Síendurteknar fullyrðingar erlendra fjölmiðla um meint þjóðargjaldþrot Íslands hefur reynst íslenskum fyrirtækjum fjötur um fót. Útflutningsráð ætlar að rannsaka hvort viðhorf almennings í útlöndum gagnvart Íslandi hafi tekið breytingum eftir bankahrunið.

Erlendir fjölmiðlar hafa sýnt Íslandi mikinn áhuga í kjölfar bankahrunsins en því miður fyrir okkur Íslendinga kemur sá áhugi ekki af góðu.

Ímynd Íslands út á við virðist hafa tekið töluverðum breytingum eftir bankahrunið ef marka má erlendar umfjallanir.

Því er til að mynda oftast slegið fram að landið sé gjaldþrota þrátt fyrir yfirlýsingar íslenskra ráðamanna um hið gagnstæða.

Íslensk fyrirtæki líða nú fyrir þessa nýju ímynd enda byggja viðskiptasambönd að miklu leyti á gagnkvæmu trausti.

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, segir óljóst á þessari stundu hvaða áhrif umræða erlendis hafi á stöðu og ímynd íslenskra fyrirtækja. ,,Auðvitað vitum við að mörg fyrirtæki hafa lent í því að eiga ekki aðgang að greiðslufrestum og öðru slíku. Þetta kemur sér auðvitað illa."

Úflutningsráð í samvinnu við Ferðamálastofu ætlar á næstu mánuðum að láta gera könnun í Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi til að meta viðhorf þessara þjóða til Íslands eftir hrun.

Jón bendir á að þrátt fyrir þá álitshnekki sem íslenskst viðskiptalíf hafi orðið fyrir ríki víða erlendis mikil samúð í garð Íslendinga.

,,Ég er ekki viss um að öll íslensk fyrirtæki hafi slæma ímynd. Þetta er fjármálaímynd við megum ekki yfirfæra yfir á öll íslensk fyrirtæki en ég held að við munum aldrei fá neina jákvæða ímynd sem fjármálamiðstöð héðan í frá."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×