Innlent

Time segir Davíð á meðal helstu sökudólga fjármálakreppunnar

Davíð Oddson seðlabankastjóri er á meðal þeirra 25 einstaklinga sem bandaríska tímaritið Time tiltekur sem helstu sökudólga fjármálakrísunnar sem riðið hefur yfir heimsbyggðina undanfarið. Lesendum gefst kostur á að greiða atkvæði á skalanum 1 og upp í 10 um hve sök viðkomandi sé stór í málinu.

Sökudólgunum er síðan raðað upp í röð eftir atkvæðafjölda og eins og staðan er í dag er Davíð í 19. sæti listans. Dick Fuld, forstjóri Lehman brothers er í efsta sæti listans. Með Davíð á listanum eru ekki ómerkari menn en Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri í Bandaríkjunum, Henry Paulson fyrrverandi fjármálaráðherra þar í landi og forsetarnir fyrrverandi þeir Bill Clinton og George W. Bush.

Blaðamaður Time segir að í þá tvo áratugi sem Davíð Oddson hefur verið í valdamiklum embættum á Íslandi, fyrst sem forsætisráðherra og síðar sem seðlabankastjóri, hafi hann innleitt nýja tíma í íslensku efnahagslífi, sem hafi einkennst af einkavæðingu bankanna og miklum uppgangi. Hann er sagður hafa lagt grunninn að íslensku útrásinni sem hafi endað með hruni efnahagskerfisins. „Góð tilraun," segir Time að lokum.

Hér er hægt að sjá listann og taka þátt í kjörinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×