Innlent

Sophia Hansen þarf að greiða tæpar 20 milljónir

Sophia Hansen
Sophia Hansen

Fyrir stundu féll dómur í máli Sigurðar Péturs Harðarson gegn Sophiu Hansen í Héraðsdómi Reykjavíkur en Sigurður höfðaði mál á hendur Sophiu vegna peningaláns sem hann lánaði henni árið 1990. Sigurður segist ánægður með að þessu máli sé loksins lokið og nú geti hann farið að hugsa um aðra hluti.

Niðurstaða héraðsdóms var sú að Sophia þarf að greiða Sigurði tæpar 20 milljónir króna auk 400.000 króna í málskostnað.

Sigurður segir að í upphafi hafi lánið verið 2 milljónir króna og svo hafi hann greitt fyrir hana ýmsar greiðslur til ársins 2005.

Hann segist aldrei hafa þegið laun frá Sophiu Hansen en Sigurður aðstoðaði hana í átakinu Börnin heim en peningalánið var í tengslum við það.

„Ég er mjög ánægður með að þessu sé nú lokið. Nú get ég loksins sett þetta aftur fyrir mig og vonandi er þessari baráttu nú loksins lokið þannig að maður geti farið að einbeita sér að öðru,“ segir Sigurður Pétur í samtali við Vísi.

Sophia Hansen vildi ekki tjá sig um niðurstöðu Héraðsdóms í málinu né hvort dómnum verði áfrýjað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×