Erlent

Talibanar skjóta flugskeytum á Kabúl

Frá Afganistan. Myndin tengist fréttinni ekki að öðru leyti.
Frá Afganistan. Myndin tengist fréttinni ekki að öðru leyti. MYND/Getty

Flugskeytaárás var gerð á Kabúl Höfuðborg Afganistans í morgun. Talibanar eru taldir standa á bakvið árásirnar en að minnsta kosti níu flugskeytum var skotið á höfuðborgina rétt fyrir dögun að sögn lögreglu í Kabúl.

Að minnsta kosti eitt barn slasaðist í árásinni og tjónið er töluvert en enn hafa engar fregnir borist af mannfalli. Að minsta kosti tvær eldflaugar lentu í Wazir Akbar Khan hverfinu í borginni en þar eru mörg sendiráð erlendra ríkja í landinu til húsa auk þess sem höfuðstöðvar herliðsins á vegum NATO sem verið hefur í landinu undanfarin ár eru í hverfinu. Aðrar flaugar lentu vítt og breitt um borgina.

Þetta er umfangsmesta árás sem gerð hefur verið á borgina í nokkur ár en Talibanar hafa heitið því að spilla forsetakosningum sem fyrirhugaðar eru í Afganistan þann tuttugasta ágúst næstkomandi. Þeir hafa hvatt fólk til þess að sniðganga kosningarnar en þetta er í annað sinn sem Afganar kjósa sér forseta síðan Talibanar voru hraktir frá völdum í landinu árið 2001. Ofbeldisverkum þeirra hefur fjölgað í landinu undanfarnar vikur í aðdraganda kosninganna en til þessa hefur Kabúl sloppið að mestu.

Að minnsta kosti tólf létust í gær þegar sprengja sprakk í vesturhluta landsins í gær og um helgina létust níu hermenn úr liði NATÓ í nokkrum árásum en bandalagið hefur fjölgað í herliði sínu í landinu um nokkraar þúsundir síðustu mánuði, ekki síst til þess að tryggja að kosningarnar fari fram með eðlilegum hætti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×