Innlent

Ræða lán og styrki frá ESB

Í talsverðan tíma hafa Íslendingar átt í viðræðum við Evrópusambandið um efnahagsaðstoð vegna efnahagsástandsins hér á landi. Aðstoð ESB verður tengd láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Á næsta ári munu íslendingar geta sótt ýmsa aðra styrki vegna þess að umsókn um aðild að ESB liggur fyrir.
Í talsverðan tíma hafa Íslendingar átt í viðræðum við Evrópusambandið um efnahagsaðstoð vegna efnahagsástandsins hér á landi. Aðstoð ESB verður tengd láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Á næsta ári munu íslendingar geta sótt ýmsa aðra styrki vegna þess að umsókn um aðild að ESB liggur fyrir.

Íslenskir embættismenn eiga í viðræðum við Evrópusambandið um efnahagslegan stuðning sambandsins við Ísland. Frumkvæðið kom frá ESB í október, skömmu eftir bankahrunið.

Auk lánveitingar munu Íslendingar á næsta ári geta sótt um fyrirgreiðslu sem eitt þeirra ríkja sem sótt hefur um aðild að ESB.

ESB hefur veitt þeim ríkjum, sem eru í nánu samstarfi við sambandið og eiga í miklum efnahagserfiðleikum svokallaðan MFA-stuðning (Macro-financial assistance). Samkvæmt upplýsingum frá sendiráði ESB á Íslandi, sem er staðsett í Noregi, hefur svokallað MFA-lán til Íslands verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Lánveitingin þarf samþykki ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir ekki um eiginlegar samningaviðræður að ræða, enda málið að frumkvæði ESB. Það sé á svipuðum nótum og gagnvart öðrum ríkjum utan ESB sem eru í sambærilegri stöðu og Ísland.

Að sögn Sveinbjörns Hannessonar, hjá sendiráði ESB, verður láni sambandsins ætlað að styðja við lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og annarra aðildarríkja ESB til Íslands. Sveinbjörn gat ekki tjáð sig um fjárhæðir en sagði ekki „um að ræða sambærilega upphæð og Ungverjaland fékk". Ungverjaland fékk 6,5 milljarða evra lán frá ESB til viðbótar 12,5 milljarða evra láni frá AGS.

Hins vegar er svokallaður IPA-stuðningur (Instrument for Pre-accession Assistance) veittur ríkjum sem sótt hafa um aðild að sambandinu, eins og Ísland gerði í sumar. Þeim styrkjum er ætlað að renna til uppbyggingar á innviðum samfélagsins og auðvelda aðlögun að sambandinu. Sambærileg aðstoð eru dreifbýlisstyrkir sem aðildarríkin njóta.

Að sögn Sveinbjörns Hannessonar verður ekki fyllilega ljóst fyrr en á árinu 2010 um hvaða IPA-aðstoð Íslendingar geta sótt.

Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, flutti erindi í Háskóla Íslands í síðustu viku og nefndi þar að samningaviðræður um MFA-lán til Íslands væru í gangi. „Það verður stuðningur frá ESB við Ísland," sagði Rehn. Rehn vísaði til stuðnings ESB við Serbíu. Serbar fengu 18 milljarða króna stuðning í tengslum við aðstoð AGS við landið.

Skrifstofa framkvæmdastjóra efnahagsmála ESB gat ekki svarað spurningum um málið, að svo stöddu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×