Enski boltinn

Benitez: Rauða spjaldið breytti öllu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez í leiknum í dag.
Rafa Benitez í leiknum í dag. Nordic Photos / AFP

Rafa Benitez segir að rauða spjaldið sem Javier Mascherano fékk í dag hafi breytt öllu í leik sinna manna í Liverpool gegn Portsmouth.

Mascherano fékk að líta beint rautt fyrir að hafa tæklað Tal Ben Haim nokkuð harkalega undir lok fyrri hálfleiks. Staðan í leiknum var þá 1-0 fyrir Portsmouth sem vann að lokum 2-0 sigur.

„Ef maður leikgreinir fyrri hálfleikinn gekk okkur nokkuð vel jafnvel þó við vorum undir. En svo kom rauða spjaldið og það breytti öllu," sagði Benitez í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

„Við fengum nokkur færi og hefðum átt að skora. Við stjórnuðum leiknum í og svo breyttist allt. Nú verðum við að vona að við getum unnið næsta leik okkar."

Avram Grant, stjóri Portsmouth, var vitanlega hæstánægður með sigur sinna manna. Grant hefur aldrei tapað fyrir Liverpool en sem stjóri Chelsea vann hann tvo sigra á Liverpool og tveimur leikjum lauk með jafntefli.

„Við spiluðum sem ein liðsheild í dag. Við bætum okkur með hverjum leik og í dag áttum við skilið að vinna," sagði Grant.

„Við spiluðum gegn toppliði deildarinnar á útivelli á miðvikudaginn og sýndum að við getum gert ýmislegt vel þrátt fyrir að vera á botni deildarinnar. Það gekk vel í dag."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×