Enski boltinn

Terry vill geta svarað áhorfendum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
John Terry.
John Terry. Nordic Photos/Getty Images

John Terry og Frank Lampard fengu vænan skammt af glósum úr stúkunni á leik liðsins gegn West Ham um helgina en báðir voru þeir á mála hjá félaginu á sínum tíma.

Þegar Chelsea skoraði eina mark leiksins fögnuðu þeir fyrir framan hörðustu stuðningsmenn Hamranna sem svöruðu fyrir sig með því að kasta aðskotahlutum í leikmenn Chelsea.

Dómaranum líkaði það illa og ræddi við Terry sem vill fá tækifæri til þess að svara áhorfendum á vellinum.

„Þegar við skoruðum hljóp ég yfir til Lampards og lét áhorfendurna aðeins heyra það á móti. Það er ekkert að því. Dómarinn ræddi við mig í rólegheitum og bað mig vinsamlegast um að sleppa því að æsa áhorfendurna upp. Ég meina ef þeir geta rifið kjaft þá hljóta þeir að geta tekið einhverju á móti. Þannig verður það bara að vera," sagði Terry.

Fjölskylda Terry styður West Ham en hún hætti við að fara á völlinn eftir að hún frétti að Terry ætti að fá óblíðar móttökur á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×