Enski boltinn

Adams sagður rekinn frá Portsmouth

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tony Adams, knattspyrnustjóri Portsmouth.
Tony Adams, knattspyrnustjóri Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar, til að mynda BBC og Sky Sports, fullyrða að tilkynnt verði í dag að Tony Adams hafi verið rekinn úr stöðu knattspyrnustjóra hjá Portsmouth.

Félagið hefur aðeins unnið tvo af þeim sextán leikjum sem Adams hefur stýrt liðinu í síðan hann tók við liðinu af Harry Redknapp í lok október. Redknapp hætti hjá Portsmouth og tók við Tottenham.

Portsmouth var með 2-1 forystu gegn Liverpool á laugardaginn þegar fimm mínútur voru til leiksloka en tapaði leiknum 3-2.

Portsmouth er í sextánda sæti deildarinnar, aðeins einu stigi frá fallsvæði.

Ferill Adams sem knattspyrnustjóri er ekki glæsilegur en hann var áður stjóri Wycombe sem vann 12 af 53 leikjum sínum undir stjórn Adams. Hann hefur einnig starfað sem þjálfari hjá hollensku félögunum Feyenoord og Utrecht.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×