Lífið

Semur dansa fyrir Eurovision

Stella er að undirbúa upphafsatriði úrslitanna í Eurovision sem fara fram um næstu helgi.
Stella er að undirbúa upphafsatriði úrslitanna í Eurovision sem fara fram um næstu helgi.

Danshöfundurinn Stella Rósenkranz er í óða önn að undirbúa upphafsatriðið í Eurovision um næstu helgi. Mikið verður lagt í það enda koma þar fram Eurovision-stjörnurnar Friðrik Ómar og Regína Ósk.

„Við leggjum allt í að þetta verði flott,“ segir Stella, sem samdi einnig danssporin fyrir lagið Lygin ein sem keppir einmitt í úrslitunum. Áður hefur hún samið dansa fyrir flytjendur á borð við Haffa Haff og Nylon og er því margreynd í faginu, auk þess sem hún er yfirkennari í dansstúdíói World Class.

Stella segir að dans sé farinn að ryðja sér til rúms sem viðurkennd list og Eurovision njóti góðs af því. Hún telur að í keppninni skipti miklu máli hvað dansinn geri fyrir lögin. „Það snýst svolítið um í Eurovision hvernig dansinn lítur út í „kameru“. Það er öðruvísi að semja fyrir sjónvarpið en fyrir svið.“

Hún segir ákaflega misjafnt hversu langan tíma taki fyrir sig að semja dansspor. „Það getur verið frá nokkrum klukkutímum upp í kannski viku. Það fer eftir því hvernig liggur á manni. Það fer dálítið eftir skapinu sem maður er í hvernig gengur,“ segir hún og bætir við að lagið sjálft hafi líka mikið að segja. Taktföst lög sem gefa til kynna eitthvað drungalegt eiga til að mynda auðvelt með að veita henni innblástur. „Svörtu hliðinni í mér finnst kannski skemmtilegra að koma fram. Það er styttra í hana,“ segir hún. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.