Innlent

Allt á suðupunkti - vildu ekki tala fyrir VG

Gríðarleg ólga er innan Vinstri grænna vegna afsagnar Ögmundar Jónassonar úr ráðherrastól og ekki er útilokað að flokkurinn klofni. Fari svo mun ríkisstjórnin springa. Ögmundur, sem og formaður þingflokks Vinstri grænna, báðust undan því að taka til máls fyrir hönd flokksins í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.

Ögmundur Jónasson, hefur verið talsmaður þess hóps innan þingflokks Vinstri grænna sem er andsnúinn Icesave samkomulaginu og samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Afsögn hans í síðustu viku hefur valdið gríðarlegri ólgu innan Vinstri grænna og er talin verulega hætta á að flokkurinn klofni í kjölfarið.

Það er til marks um þá ólgu sem nú ríkir að fyrirhuguðum þingflokksfundi Vinstri grænna sem átti að halda í dag var frestað án skýringa. Þá baðst Ögmundur undan því að taka til máls fyrir hönd vinstri grænna í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokks Vinstra grænna, treysti sér heldur ekki til að verja stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ögmundur sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann teldi óheppilegt að hann tæki að sér að tala fyrir hönd vinstri grænna þar sem honum hafi nánast verið vísað á dyr út úr ríkisstjórninni. Heimildarmenn sem fréttastofa talaði við í dag segja að ástandið í flokknum sé nú á suðupunkti.

Fari svo að Vinstri grænir klofna er ljóst að dagar ríkisstjórnarinnar eru taldir. Fjórir þingmenn munu væntanlega fylgja Ögmundi en það eru þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason.

Ögmundur sagðist þó enn styðja ríkisstjórnina í samtali við fréttastofu í dag og sagðist ennfremur ætla að ræða við Steingrím J. Sigfússon, formann flokksins þegar hann snýr aftur frá fundi Alþjóðgjaldeyrissjóðsins seinna í þessari viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×