Lífið

Sundlaug Steinunnar og Lilju verður til á Hofsósi

Ekki verður amalegt að sitja í heitu pottunum eða taka nokkur sundtök í sundlauginni á Hofsósi. Góð mynd er nú komin á mannvirkið sem rís vestan við Staðarbjarg. Áætlað er að sundlaugin verði tekin í notkun í lok þessa árs.
Ekki verður amalegt að sitja í heitu pottunum eða taka nokkur sundtök í sundlauginni á Hofsósi. Góð mynd er nú komin á mannvirkið sem rís vestan við Staðarbjarg. Áætlað er að sundlaugin verði tekin í notkun í lok þessa árs.

„Auðvitað fylgist maður með, ég bý hérna hinum megin við lækinn," segir Lilja Pálmadóttir. Lilja og aðrir íbúar á Hofsósi horfa nú með tilhlökkun í hjarta sínu á byggingu sem er að rísa, hina margumtöluðu og víðfrægu sundlaug sem þær stöllur gáfu. Sökkullinn er risinn og fyrstu myndir gefa ágætis hugmynd um hvers slags upplifun það verður að sitja í heitu pottunum og horfa yfir Skagafjörðinn og til Drangeyjar. Jafnvel geta hugmyndaríkir sundkappar ímyndað sér að þeir séu að þreyta Drangeyjarsund að hætti Grettis þegar þeir svamla um í 25 metra lauginni.

„Það var nú líka alltaf hugmyndin, að gera út á þetta magnaða útsýni og geta horft til Drangeyjar," segir Lilja.

Mikla athygli vakti þegar Lilja og Steinunn Jónsdóttir athafnakona gáfu íbúum á Hofsósi sundlaug á kvenréttindadaginn 19. júní árið 2007. Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt teiknaði sundlaugina sem rís vestan við Staðarbjarg en innifalið í gjöfinni er vegleg þjónustumiðstöð.

Ekki dugði minna til en forsetahjónin, Ólaf Ragnar og Dorrit, til að taka fyrstu skóflustunguna að lauginni en sú athöfn fór fram í apríl á síðasta ári. Fyrstu steypubílarnir keyrðu í hlaðið strax um haustið en það fór víst um ansi marga íbúana í Skagafirðinum þegar bankarnir og efnahagskerfið brunnu yfir, einhverjir töldu nær öruggt að nú væri úti um sundið. Aldeilis ekki og Skagfirðingar eru ansi bjartsýnir á framhaldið.

„Samkvæmt áætlunum er ráðgert að sundlaugin verði klár um mánaðamótin október og nóvember," segir sveitarstjórinn Guðmundur í samtali við Fréttablaðið. Hann átti þó alveg eins von á að framkvæmdirnar gætu teygst fram í desember og að sundlaugin yrði þá jólagjöfin í ár. Í það minnsta í Skagafirði. - fgg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.