Innlent

Nítján þúsund sigldu með ferjunni Baldri

Aldrei hafa jafn margir siglt með Baldri og í júlímánuði. Aðsóknin í Baldur hefur aukist til muna í ár.
Mynd/Stefán
Aldrei hafa jafn margir siglt með Baldri og í júlímánuði. Aðsóknin í Baldur hefur aukist til muna í ár. Mynd/Stefán

Metaðsókn var í Breiðafjarðarferjuna Baldur í júlí en um nítján þúsund farþegar og um fjögur þúsund bílar fóru með ferjunni. Á sama tíma í fyrra sigldu rúmlega fimmtán þúsund manns með ferjunni og um 3.500 bílar.

„Það hefur borið meira á Íslendingum í ár en áður en útlendingum hefur einnig fjölgað. Ég held að það sé bara jöfn skiptingin hjá þeim,“ segir Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða. „Það hefur verið aukning í Baldur allt árið. Ég held að það sé átta prósenta aukning það sem af er ári.“

Á sumrin fer Baldur tvær ferðir á dag en eina yfir vetrartímann. „Eftir að við skiptum um ferju 2006 þá hefur verið allt annar bragur á þessu. Ferjan hefur verið notuð miklu meira af íbúum á suðurfjörðunum og við erum að flytja stóran hluta af þungavélum, til dæmis flutningabíla,“ segir Pétur, sem jafnframt gegnir hlutverki skipstjóra hjá Sæferðum. „Síðustu árin sem gamla ferjan var notuð voru þetta 28 til 30 þúsund manns á ári en nú stefnir þetta í 55 til 60 þúsund.”

Pétur segir einnig að met hafi verið sett í fjölda ferðamanna sem heimsóttu Flatey. Í fyrra voru þeir um ellefu þúsund en nú eru þeir tólf til fjórtán þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×