Ásókn borgarbúa í umhverfisvænar ruslatunnur hefur síður en svo dregist saman í kreppunni. Við það bætist að sorpmagnið frá borgarbúum hefur dregist saman í kreppunni, segir Pétur Elínarson, rekstrarfulltrúi á umhverfissviði Reykjavíkurborgar.
„Fólk er farið að spá meira í fjölda tunna," segir Pétur. Sífelt fleiri fjölbýlishús ákveði að fækka ruslatunnunum, sem lækki um leið kostnað íbúanna af sorphirðu. Áður hafi reglan verið sú að hver íbúð þyrfti eina tunnu, en nú ráði íbúar þessu sjálfir, og geti þar með lækkað kostnað með því að fleygja minna sorpi.
Íbúar í sérbýli virðast í auknum mæli skipta út hefðbundinni svartri ruslatunnu fyrir græna, sem tæmd er aðra hverja viku, segir Pétur. Svarta tunnan kostar 16.300 krónur á ári, en sú græna 8.150 krónur.
Þá segir Pétur talsvert um að fólk í sérbýli velji að vera með eina græna tunnu undir hefðbundið sorp, og eina bláa tunnu, fyrir pappír og pappa. Bláa tunnan kostar 7.400 krónur á ári, og því sparast nokkur hundruð krónur með því að vera með græna og bláa tunnu í stað einnar svartrar, auk þess sem hluti sorpsins er endurunninn.