Innlent

Fjárhagsstaða ríkisins leyfir ekki 20% niðurfellingu skulda

Fjárhagsstaða ríkisins leyfir ekki flata 20 prósenta niðurfellingu skulda. Kostnaðurinn myndi jafngilda tvöföldum heildarútgjöldum ríkissjóðs á síðasta ári.

Það var í lok febrúar sem Framsóknarflokkurinn lagði fram tillögur sínar um flata 20% niðurfellingu skulda. Tillögurnar ganga út á að öll húsnæðislán verði færð frá bönkum til Íbúðalánasjóðs sem veitti svo 20% niðurfellingu þeirra. Einnig lögðu Framsóknarmenn til 20% niðurfellingu skulda fyrirtækja.

Starfshópur á vegum Seðlabanka Ísland hefur metið kostnað við þessar aðgerðir. Í niðurstöðunum kemur fram að kostnaðurinn við 20% flata niðurfellingu húsnæðisskulda væri um 285 milljarðar króna. Til að setja þá tölu í samhengi nemur það ríflega tvöföldum heildarútgjöldum til heilbrigðismála á síðasta ári.

Þegar við bætist 20% afskrift vegna fyrirtækjaskulda gæti heildarkostnaðurinn numið allt að 900 milljörðum króna. Það er hvorki meira né minna en tvöföld heildarútgjöld ríkissjóðs í fyrra.

Í niðurstöðum starfshópsins segir að kostnaðurinn yrði að vera borinn af ríkissjóði eða erlendum kröfuhöfum að fengnu samþykki þeirra. Þá segir að aðgerðir sem þessar hafi í för með sér viðbótarkostnað þar sem þær fela í sér afskrift skulda sem myndu að öðrum kosti verða greiddar að fullu.

Fjárhagsstaða hins opinbera leyfi ekki svo miklar afskriftir, hvorki beint né í gegnum endurfjármögnun bankakerfisins. Aðgerðirnar þyrfti því að fjármagna að mestu leyti með annaðhvort skattahækkun eða niðurskurði á ríkisútgjöldum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×