Innlent

Árs fangelsi fyrir kynferðisbrot

dómsalur Maðurinn var ekki dæmdur fyrir meint kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni.fréttablaðið/Hari
dómsalur Maðurinn var ekki dæmdur fyrir meint kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni.fréttablaðið/Hari
Karlmaður var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir ýmis kynferðisbrot gegn dóttur sinni í Héraðsdómi Suðurlands í fyrradag. Neitaði hann allri sök í málinu.

Var hann sakfelldur fyrir að hafa, nokkrum sinnum á árunum 2005 til 2008, káfað á kynfærum dóttur sinnar og í eitt skipti fyrir að fróa sér fyrir framan hana. Fyrstu brotin áttu að hafa átt sér stað þegar hún var níu ára. Þótti framburður dótturinnar sannfærandi og voru henni dæmdar 600 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn var hins vegar sýknaður af öllum ákærum vegna brota gegn stjúpdóttur sinni. Ákæran laut að nokkrum brotum á árunum 2001 til 2005 þar sem hann átti meðal annars að hafa káfað á kynfærum hennar. Nýjasta brotið var ósk mannsins um að hafa samfarir við hana þegar hún næði tvítugsaldri. Kynferðisbrotin hófust við tíu ára aldur.

Gegn eindreginni neitun ákærða taldi dómurinn að ekki væri komin fram nægileg sönnun, sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir því að ákærði væri sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Var hann einnig sýknaður af miskabótakröfu stjúpdóttur sinnar.- vsp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×