Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingforseti, áminnti fjóra þingmenn í röð fyrir að tala um annað en fundarstjórn forseta undir samnefndum dagskrárlið þingsins í dag.
Sló Ásta fjölmörg slög í þingklukkuna og bjölluhljóðin ómuðu um þingsalinn, en þetta er ekki í fyrsta sinn sinn sem forseti hefur neyðst til að áminna þingmenn af þessu tilefni.
Fyrst mælti Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, um þörfina á því að innleiða eineltisáætlun í Alþingi, eins og Vísir greindi frá fyrr í dag.
Þá ræddu Birgir Ármannsson og Tryggvi Þór Herbertsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, um þá ákvörðun að taka Icesave málið úr utanríkis- og efnahags- og skattanefnd í gær.
Truflaði forseti mál Tryggva áður en ræðutíminn var liðinn og benti honum á að nú ætti hann að ræða fundarstjórn forseta og sagði nefndavinnu ekki varða hana.
Síðastur kvað sér hljóðs Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og sagði þörf á að skýra betur við hvaða tilefni væri rétt að koma skilaboðum áleiðis í þinginu.
Guðlaugur fékk fyrir vikið á sig sex bjölluslög, og þurfti þingforseti að benda honum á að þagna þegar hann heyrði í bjöllunni.
„Hversu lengi, virðulegur forseti," spurði Guðlaugur áður en honum var gert að yfirgefa pontu á meðan aðrir þingmenn hlógu að orðaskiptum þingmannsins og forsetans.
Sjá má upptökur af umræðum um fundarstjórn forseta hér.