Innlent

Fjallgöngugarpur búinn að ganga fimm sinnum upp á Esjuna í dag

Þorsteinn Jakobsson, fjallgöngugarpur, stefnir á að komast sjö sinnum upp á Esjuna í dag og slá þar með Íslandsmet í Esjugöngu en þetta er gert til styrktar Ljósinu, sem er endurhæfingar og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda. Þorsteinn tók daginn snemma og byrjaði klukkan tvö í nótt.

Þorsteinn var þegar búinn að fara fimm ferðir, upp og niður, á tæpum níu klukkustundum þegar fréttastofa náði tali af honum í morgun.

„Ég er er akkúrat að fara að byrja sjötta ferðina," sagði Þorsteinn sem byrjaði að klukkan tvö í nótt þar sem hann taldi að það yrði sól og hiti í dag.

Þreytan var þó farin að segja til sín. „Ég hef styst farið á einum klukkutíma og fjörutíu mínútum," sagði Þorsteinn en viðurkenndi að síðustu ferðirnar muni taka lengri tíma.

Ferðirnar eru farnar til styrktar Ljósinu, sem er endurhæfingar og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda.

„Mér fannst vera þörf á að styrkja þessi samtök. Þau eru bæði fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra."

Þeim sem vilja leggja átakinu lið er bent á heimasíðu Ljóssins, ljosid.org.

Við þetta má bæta að Esjudagurinn er í dag og fjölmargt í boði; Skipulagðar gönguferðir með fararstjórum, ratleikur og gönguferð í fyrstu búðir fyrir börn svo fátt eitt sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×