Innlent

Hvalur 8 á leið í land með tvær langreyðar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Kristján Loftsson er framkvæmdastjóri Hvals sem gerir út Hval 8 og Hval 9.
Kristján Loftsson er framkvæmdastjóri Hvals sem gerir út Hval 8 og Hval 9. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Hvalveiðiskipið Hvalur 8 er á leið í land með tvær langreyðar. Þetta eru fyrstu dýrin sem skipið veiðir í 20 ár. Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., gat ekki upplýst hvar dýrin voru veidd og endaði með því að skella á fréttamann.

Í síðustu viku veiddi Hvalur 9 tvær fyrstu langreyðarnar sem veiða á í ár. Farið var með dýrin í Hvalstöðuna í Hvalfirði þar sem þau voru skorin.

„Veistu það þetta er allt veitt innan 200 mílna landhelgi. Ég man ekki nákvæmlega staðinn. Enda skiptir það ekki máli hvar hann er veiddur. Þetta er bara á hefðbundnum hvalaslóðum," sagði framkvæmdastjórinn aðspurður hvar Hvalur 8 hafi veitt umrætt dýr.

Því næst spurði fréttamaður Kristján út í veiðar Hvals 9. „Blessaðir, verið þið ekki að spyrja svona eins og börn. Við erum í fullum gangi í hvalnum og þetta gengur bara vel hjá okkur," sagði Kristján og bætti við sér þætti spurningarnar flóknar.

Þegar fréttamaður vildi vita hvort ekki væri eðlilegt að forsvarsmaður Hvals hf. svaraði spurningum um veiðar skipanna sagði Kristján áður en hann skellti á: „Ég bið bara að heilsa þér. Blessaður."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×