Innlent

Vill að Árni segi af sér

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra.
Árni Mathiesen, fjármálaráðherra.

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, hefur ítrekað gerst sekur um umdeild vinnubrögð auk þess sem margir hafa efast um getu hans og þekkingu til að stýra efnahagslífi landsins í skjóli menntunar í dýralækningum, að mati Þórðar Heiðars Þórarinssonar aðstoðarritstjóra Deiglunnar. Hann segir að réttast væri að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, krefðist afsagnar Árna en þar sem ekki virðist ætla að leiða til þess þurfi Árni að taka af skarið sjálfur og segja af sér.

Deiglan er vefrit ungra hægrimanna í Sjálfstæðisflokknum og eru forsvarsmenn þess nátengdir forystu flokksins. Andri Óttarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Borgar Þór Einarsson fyrrum formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og fóstursonur Geirs, Helga Lára Haarde dóttir Geirs og Þórlindur Kjartansson formaður SUS eru meðal þeirra sem ritstýrt hafa vefritinu sem var stofnað í 1998.

Árni munnhöggvast við umboðsmann Alþingis

Þórður segir að Árni hafi í fyrra gerst sekur um að munnhöggvast við umboðsmann Alþingis vegna embættisfærslna sem umboðsmaður gerði athugasemdir við. ,,Árni var ekki sammála og reifst opinberlega við umboðsmann, eina lögskipaða eftirlifsmann stjórnsýslunnar á landinu."

Undir lok síðasta árs hafi umboðsmaður fellt annan dóm um fjármálaráðherra þegar hann gagnrýndi harðlega ráðningu Árna á Þorsteini Davíðssyni sem héraðsdómara. ,,Í kjölfarið lýsti Sigurður Líndal fyrrum lagaprófessor þeim dómi á áliti umboðsmanns að Árni hefði brotið það harkalega af sér að í nánast öllum öðrum tilvikum, þ.e. alls staðar annars staðar í stjórnsýslunni, hefði brotið sjálfkrafa leitt af sér uppsögn á starfssamningi. Árni virðist hins vegar þverrast við og sér enga ástæðu til uppsagnar, ekki frekar en aðrir embættismenn sjái ástæðu til að axla ábyrgð."

Árni sekur dýpra í fenið

Þórður segir að Árni sjái ekki eigin axarsköft og sökkvi dýpra í fenið ,,...þar til nefið fyllist af skít sem hann hefur mokað undir sig sjálfur."

,,Réttast væri að forsætisráðherra krefðist afsagnar ráðherra (og fleiri ef því er að skipta) en þar sem ekki virðist ætla að leiða til þess þá þarf Árni að taka af skarið sjálfur. Árni, þú verður maður að meiri á eftir og vonandi fylgja svo fleiri í kjölfarið," segir Þórður að lokum.

Grein Þórðar, Augun full af ryki og nefið af skít!, er hægt að lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×