Innlent

Hægt að gegnumlýsa 40 feta gám á innan við mínútu

Í dag fór fram formleg afhending á gámagegnumlýsingabifreið sem Tollstjórinn hefur keypt í þeim tilgangi að efla aðgerðir gegn fíkniefnasmygli og auka öryggi vöruflutninga. Það var Árni Mathiesen fjármálaráðherra sem veitti bifreiðinni móttöku úr hendi fulltrúa fulltrúa kínverska fyrirtækisins Nuctech, en fyrirtækið átti hagstæðasta boð í útboði vegna kaupanna.

Kaupverðið var rúmar 1,3 milljónir evra en búnaðurinn mun gera tollgæslunni kleift að stór auka fjölda skoðaðra gáma á ári hverju með talsvert minni fyrirhöfn en áður hefur tíðkast.

Tollgæsla og aðrar löggæslustofnanir víða um heim hafa notast við bifreiðar sem þessa um nokkurt skeið og hafa þær skilað góðum árangri. Bifreiðin er búinn nýjustu tækni sem völ er á í dag í færanlegum gámaskönnum og innan við mínútu tekur að gegnumlýsa 40 feta gám að myndgreiningunni undanskyldri.

Með slíkri gegnumlýsingu er hægt að sjá hvað leynist á bakvið allt að 320mm af stáli og hægt er að gegnumlýsa hluti sem eru 4,6 metra háir og 2,7 metra breiðir. Bifreiðin sjálf vegur rúm 24 tonn og er búinn 12,8 lítra, 400 hestafla mótor. Með bifreiðinni er unnt að framkvæma gegnumlýsingu þó svo að rafmagnstenging sé ekki til staðar en þá er notast við 42 Kw rafstöð sem er hluti af búnaði bifreiðarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×