Lífið

Fimmtíu íslenskar umsóknir á RIFF

Stuttmyndin The Gentlemen eftir Janus Braga Jakobsson verður sýnd á hátíðinni.
Stuttmyndin The Gentlemen eftir Janus Braga Jakobsson verður sýnd á hátíðinni.

Alls bárust fimmtíu umsóknir frá íslensku kvikmyndagerðarfólki til Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem verður haldin 17. til 27. september. Af þeim verða vel á annan tug mynda sýndar, bæði myndir í fullri lengd og stuttmyndir. Á meðal þeirra er Louise Michel eftir Sólveigu Anspach, stuttmyndin Flæktar sálir og fáein símanúmer eftir Ísold Uggadóttur og heimildarmyndin Edie & Thea: A Very Long Engagement sem Gréta Ólafsdóttir framleiðir. Susan Muska leikstýrir síðastnefndu myndinni, sem hlaut áhorfendaverðlaun sem besta heimildarmyndin á Outfest-hátíðinni fyrr á árinu.

Einnig verður sýnd stuttmyndin The Gentlemen í leikstjórn Janusar Braga Jakobssonar, sem er nýútskrifaður úr heimildarmyndadeild Danska kvikmyndaskólans. Myndin fjallar um þrjá unga menn sem hittast á bryggju og leggja drög að nýrri hljómsveit.

Önnur áhugaverð mynd á hátíðinni nefnist Hús fullnægjunnar og er eftir bandaríska leikarann og tónlistar- og kvikmyndagerðarmanninn Jesse Hartman. Myndin verður heimsfrumsýnd á hátíðinni og verður Hartman viðstaddur frumsýninguna. Hann ætlar einnig að halda tónleika meðan á dvöl hans hér á landi stendur. Þeir munu tilheyra tónleikaröðinni Réttum.

-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.