Innlent

Fólk beðið um að halda sig frá brunarústunum á Þingvöllum

Frá Þingvöllum í gær.
Frá Þingvöllum í gær. Mynd/Arnþór Birkisson
Lögreglan á Selfossi biður þá sem fara til Þingvalla næstu daga að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá brunarústunum leggi það leið sína að þeim. Rannsókn er hafin á upptökum brunans og skýrslur hafa verið teknar af nokkrum starfmönnum hótelsins. Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins.

Á mánudag mun fara fram vettvangsrannsókn. Rannsóknarlögreglumenn tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðir til aðstoðar og komu þeir á brunavettvang strax. Þeir munu vinna við frekari vettvangsrannsókn á mánudag.

Fyrir liggur að margir aðilar hafa orðið fyrir tjóni í brunanum og þá mest húseigandi og rekstraraðili. Starfsmenn og gestir misstu persónulega muni sína. Búnaður sem var á vegum fyrirtækjanna Símans og Mílu, sem var á og við hótelið, skemmdist í brunanum.

Lögreglan á Selfossi vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu lið við slökkvistarfið sem og fjölmiðlafólki sem sýndi mikla tillitsemi og aðgát á brunavettvangi, að fram kemur í tilkynningu.


Tengdar fréttir

Horfði á ættarsetrið brenna í sjónvarpinu

Hótel Valhöll var í eigu fjölskyldu Jóns Ragnarssonar veitingamans í um fjörutíu ár. Foreldrar hans þau Ragnar Jónsson og Júlíana Sigurbjörg Erlendsdóttir eignuðust hótelið árið 1963 og var það í eigu fjölskyldunnar allt til ársins 2002 þegar íslenska ríkið keypti húsið. Það var því að vonum erfitt fyrir Jón að fylgjast með fréttum í kvöld þar sem hann horfði á Hótel Valhöll í ljósum logum.

Valhöll rústir einar eftir stórbrunann

Ekki stendur nú steinn yfir steini af Hótel Valhöll á Þingvöllum sem brann í gær. Starfsfólk gerði sitt besta til að slökkva eldinn en brunavörnum var mjög ábótavant.

Eyðileggingin algjör

Hótel Valhöll á Þingvöllum fór illa í eldsvoða í gær og er talið ónýtt. Ekki var brugðist við skýrslu frá árinu 2006 sem sagði brunavörnum ábótavant. Ég er ekki hissa á þessum endalokum segir annar höfunda svartrar skýrslu.

Símstöð brann í Valhöll

Lítil símstöð í eigu Símans var inni í Valhöll sem stendur nú á björtu báli. Þetta þýðir að um þrjátíu viðskiptavinir á svæðinu munu missa talsamband. Tekið gæti nokkra daga að koma upp nýrri símstöð en að sögn upplýsingafulltrúa Símans verða hafðar hraðar hendur við að koma viðskiptavinum aftur í samband.

Valhöll brunnin til kaldra kola

Hótel Valhöll er brunnin til grunna og nú standa einungis steinveggir þar sem hinn reisulegi burstabær áður stóð. Engu var hægt að bjarga að sögn slökkviliðsmanna á staðnum og hægt verður að moka rústunum í burtu.

Helgi Björns næstum fimmtugur í Valhöll

„Hvað verð ég gamall? Ehhh, 49 ára. Ég er reyndar búinn að vera það í nokkur ár. Ég ætla að vera það áfram. Þetta er ágætur aldur," segir Helgi Björnsson sem á afmæli í dag og heldur upp á það með tónleikum í Valhöll.

Valhöll brennur - loftmyndir

Nú síðdegis brann hin sögufræga bygging Hótel Valhöll og er nú rústir einar. Arnþór Birkisson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á staðnum og náði mögnuðum myndum sem sjá má í albúmi hér fyrir neðan sem ber heitið „Valhöll". Einnig má sjá stórkostlegar loftmyndir í albúminu „Valhöll - Loftmyndir" en þær eru teknar af Ingólfi Helga Tryggvasyni, einkaflugmanni sem átti leið hjá Þingvöllum í dag.

Sprengihætta í Valhöll

Lögregla og Slökkvilið vilja koma á framfæri þeim boðum til almennings að halda sig í góðri fjarlægð frá eldstaðnum á Þingvöllum vegna sprengihættu. Á það við umferð á landi sem og úr lofti.

Brunabjalla fór tvisvar í gang áður en brugðist var við

Kristján Gunnarsson ákvað að bregða sér í huggulegan hádegisverð í Valhöll í dag ásamt konu sinni og erlendum vinum þeirra. Þegar aðalrétturinn hafði runnið niður byrjuðu eldvarnarbjöllurnar að hringja.

Vinnuvélar brutu niður það sem eftir stóð af Valhöll

Starfsfólk á Hótel Valhöll á Þingvöllum leitaði lengi að eldi í húsinu eftir að brunabjöllur hringdu þrisvar sinnum í gærdag. Meðal annars fór það upp á þak hótelsins til þess að leita að hita. Svo blossaði eldurinn skyndilega upp og húsið var alelda þegar slökkvilið kom á vettvang. Húsið brann til kaldra kola. Talið er víst að kviknað hafi í þegar verið var að grilla í eldhúsinu fyrir samkvæmi sem átti að halda um kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×