Innlent

Kona réðst á starfsfólk í Húsafelli og var handtekin

Kona á þrítugsaldri veittist að starfsfólki á tjaldsvæðinu í Húsafelli í nótt eftir að þau höfðu afskipti af henni vegna ölvunarláta. Konan lét öllum illum látum og þurfti að kalla lögreglu til sem að lokum handtók konuna. Ekki var hægt að vista hana í fangageymslum lögreglunnar í Borgarnesi vegna manneklu og því var ekið með konuna til móts við lögreglumenn frá Reykjavík sem tóku við henni og fluttu á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hún sefur nú úr sér áfengisvímuna.

Nóttin var víðast hvar erilsöm hjá lögreglumönnum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði tvo ökumenn í nótt sem grunaðir voru um ölvunarakstur og lögreglan á Húsavík handtók mann í nótt sem ók undir undir áhrifum áfengis. Þá var ölvaður maður handtekinn í Reykjanesbæ hann hafði valdið íbúum ónæði auk þess að hafa hægðir í húsagarð.

Lögreglan á Akureyri hafði orð á því að skemmtanahald hafi farið einkar vel fram í bænum í nótt og líkti varðstjóri ástandinu við jólanótt. Mikið af fjölskyldufólki er í bæjarfélaginu en þar fer fram nú um helgina 26. Landsmót Ungmennafélags Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×