Enski boltinn

Scolari sér eftir Robinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luiz Felipe Scolari, knattspyrnustjóri Chelsea.
Luiz Felipe Scolari, knattspyrnustjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Luiz Felipe Scolari, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea, segist sjá sérstaklega eftir því að hafa mistekist að landa Robinho sem valdi frekar að fara til Manchester City frá Real Madrid.

Scolari segir í samtali við France Football að Chelsea vanti leikmann sem geti unnið leiki upp á eigin spýtur. Viðtalið mun hafa verið tekið fimm dögum áður en Scolari var rekinn frá Chelsea. Enska dablaðið The Guardian heldur því fram að Scolari hafi vel vitað af því að hann ætti það á hættu að vera sagt upp vegna ummælanna.

„Það er enginn leikmaður hjá Chelsea sem getur skapað töfra á knattspyrnuvellinum. Við söknum þess. Arjen Robben var hjá Chelsea og gat breytt miklu í leikjum. En nú er það enginn," sagði Scolari.

„Robinho hefði getað verið þessi leikmaður. Hann er ekki hræddur við að rekja boltann áfram og taka áhættur. Mér líkar við þannig leikstíl enda er ég Brasilíumaður. Liðið mitt er ekki nægilega brasilískt. Þetta er „skriffinskulegt" lið."

„Það er mjög erfitt að tefla bæði Drogba og Anelka fram saman í sókninni. Mig skortir þá leikmenn sem geta spilað á köntunum í því kerfi (4-4-2). Kalou getur spilað á kantinum í 4-3-3 en ekki í 4-4-2 því hann er ekki nægilega góður varnarmaður."

Hann sagði að hann hefði frekar valið að nota Anelka því Drogba skorti sjálfstraust.

Spurður hvort hann óttaðist að missa starfið sitt sagðist hann ekki getað stjórnað þeim málum.

„Forráðamenn félagsins ákváðu síðasta sumar að ráða mig í starf knattspyrnustjóra. Það var á þeirra ábyrgð. Það er einnig þeirra ákvörðun að reka mig. Ég reyni bara að sinna mínu starfi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×