Innlent

Einar Karl á tvöföldum launum hjá ríkinu

Einar Karl Haraldsson, nýráðinn almannatengslaráðgjafi Landsspítalans.
Einar Karl Haraldsson, nýráðinn almannatengslaráðgjafi Landsspítalans. Mynd/GVA

Einar Karl Haraldsson, nýráðinn almannatengslaráðgjafi Landsspítalans, þiggur biðlaun sem fyrrverandi aðstoðarmaður iðnaðarráðherra auk þess að þiggja verktakagreiðslur frá Landsspítalanum. Þetta staðfestir Einar í samtali við Vísi.

Einar Karl var aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi iðnaðarráðherra, þar til hann lét af embætti þann 10. maí. Einar á lögum samkvæmt rétt á biðlaunum í þrjá mánuði eftir að hann lætur af starfi, eða fram í ágústmánuð. Hverfi hann til annars starfs á vegum ríkisins innan þess tíma falla biðlaunin hins vegar niður.

Einar Karl var nýverið ráðinn til Landsspítala Íslands til að festa í sessi nýtt vinnulag á sviði almannatengsla. Þar hefur hann störf 1. september. Fram að þeim tíma þiggur hann verktakagreiðslur á meðan hann undirbýr vinnuna framundan. Verktakagreiðslurnar bætast við biðlaunin, sem ella hefðu fallið niður.

Aðspurður hverju þetta sæti segir Einar að hann hyggist taka sér langt sumarfrí og sé einfaldlega í tímavinnu sem verktaki við að átta sig á hlutunum og undirbúa haustið.

„Það er ekki gott að koma einu skrefi á eftir inn í þetta. Ég tel algjörlega nauðsynlegt til að maður geti tekið lotu með [nýrri framkvæmdastjórn Landsspítalans] í haust að maður viti hvað þau eru að hugsa," segir Einar og segist aðspurður ekki telja óeðlilegt að hann þiggi bæði verktakagreiðslur og biðlaun hjá hinu opinbera.






Tengdar fréttir

Einar Karl segist ekki fá greiðslur sem verktaki

„Ég fæ engar greiðslur á þessu tímabili frá Landsspítalanum á meðan ég er á biðlaunum," segir Einar Karl Haraldsson. Einar hafði samband við Vísi og gerði athugasemdir við frétt sem birtist um launagreiðslur til hans frá ríkinu fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×