Lífið

Stjörnur í afmæli Stjána Stuð

Elton John hvað? Afmælisveisla Stjána Stuðs verður með því flottasta sem sést hefur.
Elton John hvað? Afmælisveisla Stjána Stuðs verður með því flottasta sem sést hefur.

Kristján Þórðarson, betur þekktur sem útvarpsmaðurinn Stjáni Stuð, heldur upp á fertugsafmæli sitt í lok maí. Það er ekki vottur af kreppubrag á veislunni og Elton John og Ólafur Ólafsson falla algjörlega í skuggann á poppstjörnunum sem Stjáni býður upp á í sínu afmæli. „Þetta er svona allt að smella núna. Sjonni Brink byrjar þetta, en svo koma meðal annars fram Skítamórall, Á móti sól og Land og synir. Hljómsveitin Hitakútur endar tónleikana. Svo á ég eftir að tala við Ný dönsk, en Ingó og Veðurguðirnir og Greifarnir gefa endanlegt svar í mars. Þetta eru allt vinir og kunningjar,“ segir Stjáni.

Afmælisveislan hefur verið lengi í undirbúningi en hún verður haldin í sal í Stangarholti. „Við erum fimm í skemmtinefndinni en það eru margir sem hjálpa. Til dæmis strákarnir í Exton sem skaffa diskóljós. Salurinn tekur 120 manns í sæti en hinir verða bara að standa og dansa.“

Stjáni og Soffía og bróðir Stjána og fjölskylda hans, fara nokkrum dögum eftir afmælið í mikla skemmtiferð til Flórída og er stefnan tekin þráðbeint á Disneyland. Stjáni var svartsýnn á að af ferðinni yrði fyrir nokkrum mánuðum vegna gengishruns krónunnar, en nú er hann búinn að taka ákvörðun um að kýla á ferðina. „Maður verður nú ekki fertugur nema einu sinni á ári!“ segir Stjáni og hlær.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.