Innlent

Vilja bæta öryrkjum skerðingu í nýju kerfi

Nefnd leggur til að komið verði á fót kerfi barnatrygginga þannig að öllum barnafjölskyldum verði tryggð ákveðin fjárhæð til lágmarksframfærslu. Barnatryggingarnar yrðu tekjutengdar og myndu skerðast hjá fólki með tekjur yfir meðalráðstöfunartekjum. Hagur atvinnulausra og láglaunafólks myndi batna en öryrkjar yrðu fyrir skerðingu.
Nefnd leggur til að komið verði á fót kerfi barnatrygginga þannig að öllum barnafjölskyldum verði tryggð ákveðin fjárhæð til lágmarksframfærslu. Barnatryggingarnar yrðu tekjutengdar og myndu skerðast hjá fólki með tekjur yfir meðalráðstöfunartekjum. Hagur atvinnulausra og láglaunafólks myndi batna en öryrkjar yrðu fyrir skerðingu. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Nefnd um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerð mælir með því nýju kerfi barnatrygginga sem komi í stað barnabóta, mæðra- og feðralauna, barnalífeyris og viðbótar við atvinnuleysisbætur vegna barna. Árlegur kostnaður er talinn 14 milljarðar og á nýja kerfið ekki að auka útgjöld ríkisins.

Miðað er við að öllum barnafjölskyldum verði tryggð ákveðin fjárhæð til lágmarksframfærslu. Barnatryggingar yrðu tekjutengdar og myndu skerðast hjá fólki með tekjur umfram meðalráðstöfunartekjur. Hagur tekjulágra hópa, sérstaklega atvinnulausra og láglaunafólks, myndi batna og kerfið nýtast barnmörgum fjölskyldum.

Barnatryggingarnar myndu tryggja öllum foreldrum upp að ákveðnum lágtekjumörkum 40 þúsund króna greiðslu fyrir hvert barn. Skerðingarmörkin yrðu 146 þúsund krónur hjá einstæðum foreldrum og 252 þúsund hjá hjónum miðað við tekjur fyrir skatt.

Eini hópurinn sem yrði fyrir skerðingu í þessu nýja kerfi er öryrkjar. Björk Vilhelmsdóttir, einn nefndarmanna, segir að öryrki fengi 42.200 fyrir eitt barn samkvæmt gamla kerfinu en 35.851 samkvæmt tillögunum.

„Öryrki væri að lækka um 6.000 krónur á mánuði. Við vitum að þetta er hópur sem er ekki vel settur þannig að við leggjum til að þessum hópi verði bætt þetta sérstaklega með hækkun sjálfs örorkulífeyrisins,“ segir Björk.

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, er ekki sátt við að öryrkjar verði fyrir skerðingu. Hún telur að ganga verði frá því fyrirfram með hvaða hætti og hvenær þeim verði bætt skerðingin

„Nefnd er að endurskoða almannatryggingakerfið og við teljum mjög eðlilegt að hún skoði þennan þátt. Öryrkjar eru eini viðkvæmi hópurinn sem fær einhverja lækkun samkvæmt þessum tillögum og það verður bara að bæta þeim það upp,“ segir Björk Vilhelmsdóttir.

Í tillögum nefndarinnar er einnig gert ráð fyrir að dómurum verði veitt heimild til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá barns gegn vilja annars foreldrisins. Þá verði maki í nýrri sambúð að sækja um forsjá í stað þess að fá hana sjálfkrafa, foreldrar beri almennt kostnað af umgengni og að forsjárlausir foreldrar hafi sama aðgang að skriflegum upplýsingum um barn sitt og forsjárforeldrar.

ghs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×