Innlent

Ódýrara heimilisrafmagn með fleiri álverum

Kristján Már Unnarsson. skrifar
Því meiri stóriðja, því lægra raforkuverð til heimila. Þessi niðurstaða var kynnt á fundi Samorku í morgun. Forrmaður Landverndar segir að taka verði með í útreikningana kostnað við neikvæð umhverfisáhrif.

Reykjavík er sú höfuborg Norðurlandanna sem býr við ódýrasta rafmagnið, að því er fram kemur í skýrslu sem Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrverandi stjórnarforrmaður Landsvirkjunar, kynnti í morgun. Rannsókn hans sýnir að raforkuverð meðalheimilis hérlendis lækkaði um þrjátíu prósent á árunum 1997 til 2008 á sama tíma og raforkunotkun stóriðju snarjókst.

Jóhannes dregur þá ályktun að heimilin njóti góðs af stóriðjunni vegna samnýtingar á afltoppum í raforkukerfinu. Það sé ekki með nokkru móti hægt að segja að innlend verð hafi hækkað vegna orkufreka iðnaðarins. Þvert á móti sé hægt að sýna fram á orsakasamhengi á milli lækkandi raforkuverðs til heimila og meiri raforkusölu til stóriðju.

Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við Háskólann á Akureyri, segir að sú staðhæfing, sem stundum heyrist, að almenningur niðurgreiði orkuverð til stóriðju, standist ekki. Samlegðaráhrifin séu slík að eftir því sem stóriðjan verði stærri, því meiri möguleikar séu á því að lækka raforkuverð til almennings.

Formaður Landverndar, Björgólfur Thorsteinsson, segir reikningsdæmið flóknara og að telja verði með kostnað af umhverfisáhrifum virkjana og línulagna. Hann nefnir sem dæmi Suðvesturlínur, sem eigi að flytja raforku til Helguvíkur. Þær hafi mjög veruleg neikvæð umhverfisáhrif á verðmæt útivistarsvæði, sem eigi bara eftir að auka verðgildi sitt í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×