Innlent

Endurtekið efni í stefnuræðu

Forsætisráðherra  Endurreisn bankanna hefur verið á lokastigi allt þetta ár.
Forsætisráðherra Endurreisn bankanna hefur verið á lokastigi allt þetta ár.

„Endurreisn bankanna er nú loks á lokastigi,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á mánudagskvöld.

Hún hefur sagt þetta áður.

Í febrúar – þegar rúmur hálfur mánuður var liðinn frá því að stjórn hennar tók til starfa – tíundaði Jóhanna verkefnin sem þá þegar voru komin í farveg. Meðal þeirra var endurreisn fjármálakerfisins.

Í byrjun apríl var verkefnalisti ríkisstjórnarinnar birtur. Í honum sagði: Nú sér fyrir endann á endurreisn bankakerfisins í samræmi við samþykkta stefnumörkun.

Í aðsendri grein í Mogganum í apríl, viku fyrir kosningar, undir millifyrirsögninni „Enduruppbygging bankanna á lokastigi“, sagði Jóhanna endurreisn fjármálakerfisins eitt mikilvægasta verkefni efnahagsáætlunarinnar. „Gríðarlegur árangur hefur náðst á þessu mikilvæga sviði í tíð núverandi ríkisstjórnar og sér nú fyrir endann á því verkefni.“

Undir lok júní sagði Jóhanna í grein í Fréttablaðinu að rúmum tveimur vikum síðar yrði stórum áfanga náð í endurreisn efnahagslífsins þegar ríkissjóður legði bönkum til eigið fé.

Niðurlag kaflans um endurreisn bankanna í stefnuræðunni á mánudag var svohljóðandi: „Ef fram fer sem horfir þá munu vel fjármagnaðir bankar með víðtæk alþjóðleg tengsl geta tekið virkan þátt í endurreisn íslenskra fyrirtækja samfara því að verðbólga og vextir fara ört lækkandi næstu misserin.“- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×