Innlent

Guðmundur í Byrginu ákærður fyrir stórfelld fjársvik

Helga Arnardóttir. skrifar

Ákæra hefur verið gefin út á hendur Guðmundi Jónssyni betur þekktum sem Guðmundi í Byrginu fyrir að svíkja undan skatti og að draga sér hátt í 10 milljónir króna þegar hann var forstöðumaður Byrgisins.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur rannsakað meint fjársvik Guðmundar Jónssonar í rúm tvö ár. Nú hefur samkvæmt heimildum fréttastofu verið gefin út ákæra á hendur honum þar er hann ákærður fyrir stórfelld skattalaga- og auðgunarbrot.

Hann á að hafa dregið að sér hátt í 10 milljónir króna þegar hann var forstöðumaður hjá meðferðarheimilinu Byrginu, áður en fréttaskýringaþáttur Kompáss svipti hulunni af starfseminni þar í lok árs 2006. Einnig á hann að hafa svikið undan skatti en Byrgið var að stærstum hluta rekið fyrir opinbert fé.

Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því. Guðmundur var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti Íslands í byrjun desember í fyrra fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum sem höfðu verið skjólstæðingar hans í Byrginu.

Héraðsdómur hafði áður dæmt Guðmund í þriggja ára fangelsi.

Fréttastofa hefur ekki náð í Hilmar Baldursson lögmann hans vegna málsins. Guðmundur hóf afplánun á Litla hrauni í lok maí í vor.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×