Innlent

Skólplykt í fjörunni senn úr sögunni

Lónið á Seyðisfirði Skólplyktin er hvimleið en bæjarstjórinn segir að framkvæmdum ljúki á næstu dögum.
Lónið á Seyðisfirði Skólplyktin er hvimleið en bæjarstjórinn segir að framkvæmdum ljúki á næstu dögum.

Megna skólplykt leggur af holræsi Seyðfirðinga sem opnast beint út í sjó þar til framkvæmdum við nýja frá­rennslislögn lýkur.

„Þetta er kannski ekki geðslegt en það hefur verið vegna þess að það eru komnir garðar hvor sínum megin við lögnina til að halda vatninu frá vinnusvæðinu. Þegar flæðir er þetta hálf ógeðslegt,“ segir Ólafur Hr. Sigurðsson bæjarstjóri sem kveður skólp hafa runnið í sjóinn á þessum stað í fimm ár, eða frá því höfnin var gerð.

Að sögn Ólafs þurfa menn að sæta lagi og vinna verkið á fjöru.

„Nú á bara eftir að tengja saman tvö rör, þvert í gegnum lónið, og þetta klárast í síðasta lagi í næstu viku,“ lofar Ólafur sem kveður nýja frárennslið verða mikla bragar­bót. Verkið kosti um 150 milljónir króna.

„Þegar framkvæmdum lýkur verðum við komin með allt skólpið í eina útrás sem er nánast hvergi búið að gera á landinu. Skólpið fer þá 150 metra frá landi og opnast á 24 metra dýpi,“ segir bæjarstjórinn. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×