Innlent

Framsýn ályktar um sjómannaafsláttinn

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar- stéttarfélags var haldinn í gær, 30. desember, í fundarsal félagsins. Í tilkynningu segir að fundurinn hafi verið mjög vel sóttur og miklar umræður sköðuðust sem stóðu yfir í tæpa fjóra tíma. Á fundinum var ályktað um sjómannaafsláttinn og mótmælti fundurinn harðlega áformum stjórnvalda um að fella niður sjómannaafsláttinn í áföngum og leggja þar með stóraukna skattbyrði á herðar sjómanna.

„Sjómannaafslátturinn hefur verið hluti af kjörum sjómanna í um hálfa öld. Sjómannadeild Framsýnar hafnar því ekki að málið verði tekið upp í þríhliða viðræðum í næstu kjarasamningum milli stjórnvalda, LÍÚ og stéttarfélaga sjómanna. Til umræðu verði einnig fæðis- og hlífðarfatakostnaður sjómanna þar sem það er mjög óeðlilegt að þessar greiðslur, sem útgerðin greiðir sjómönnum, flokkist sem laun og séu skattlagðar sem slíkar," segir ennfremur og bent á að dagpeningar sem greiddir eru til annarra stétta vegna ferðalaga á vegum vinnuveitanda séu hins vegar ekki skattlagðir.

„Sjómannadeild Framsýnar ítrekar kröfuna um að Alþingi falli frá öllum áformum sem miða að því að skerða kjör sjómanna umfram aðrar stéttir í landinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×