Innlent

Vill að fjölmiðlar fái stuðning frá ríkinu

dagblöð Með nýju fjölmiðlalögunum verður löggjöf um prent- og ljósvakamiðla sameinuð. Stofnuð verður fjölmiðlastofa sem hefur eftirlit með fjölmiðlum. Frumvarpið fer fyrir Alþingi á næstu dögum.fréttablaðið/anton
dagblöð Með nýju fjölmiðlalögunum verður löggjöf um prent- og ljósvakamiðla sameinuð. Stofnuð verður fjölmiðlastofa sem hefur eftirlit með fjölmiðlum. Frumvarpið fer fyrir Alþingi á næstu dögum.fréttablaðið/anton

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, telur að ríkisvaldið eigi að styðja við fjölmiðla til að tryggja innviði þeirra og lýðræðislega umræðu. Slíkt sé alþekkt á Norðurlöndunum. Hún saknar ákvæðis þar um í frumvarpi um fjölmiðlalög sem lagt verður fyrir Alþingi á næstu vikum.

„Í frumvarpinu er ekki tekin afstaða til þessarar spurningar. Við erum eina þjóðin á Norðurlöndum þar sem enginn stuðningur er við aðra fjölmiðla en ríkisútvarp. Mér finnst að við eigum að skoða allar leiðir til að efla fjölmiðla og tryggja fjölbreytni og fjölræði þar. Við stöndum uppi með fjölmiðla á brauðfótum og mikil óánægja er með ástandið þar. Ég held að við þurfum að taka afstöðu til þessarar spurningar til að ná árangri.“

Þóra segist ánægð með ýmislegt í frumvarpinu; ábyrgðarreglur séu samræmdar á milli prent- og ljósvakamiðla og ákvæði séu um gagnsæi eignarhalds og vernd heimildarmanna. Ákvæði um sjálfstæði ritstjórna gangi hins vegar allt of skammt og selji mönnum sjálfdæmi.

„Þá finnst mér hlutverk fjölmiðla­stofu óljóst og sakna þess að engin jafnréttisákvæði séu í frumvarpinu þrátt fyrir að augljóslega sé pottur þar brotinn. Eftir alla þá umræðu sem hefur verið í samfélaginu um fjölmiðlalög má segja að þetta séu vonbrigði.“

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að með frumvarpinu verði tilskipun Evrópu­sambandsins um fjölmiðla innleidd. Hlutverk fjölmiðlastofu verði að fylgjast með að fjölmiðlar fari að settum reglum, til að mynda varðandi áfengisauglýsingar og fleira í þeim dúr. Þá hafi hún ákveðnu eftirlitshlutverki að gegna, til dæmis varðandi eignarhald fjölmiðla.

Frumvarpið hefur verið til kynningar á vef menntamálaráðuneytisins og hafa gefist tækifæri til athugasemda. Það verður lagt fram á Alþingi á næstu dögum og segir Katrín að menntamálanefnd muni hafa góðan tíma til að fara yfir málin. Stjórn Blaðamannafélagsins mun álykta um frumvarpið þegar það verður lagt fyrir þingnefnd.

Starfshópur sem er með málefni Ríkisútvarpsins til endurskoðunar lýkur vinnu sinni fyrir mánaðamót. Katrín segir efnivið þeirrar vinnu verða notaðan til að endurnýja þjónustusamning og einnig til skoðunar á lagaumhverfi Ríkisútvarpsins.

kolbeinn@frettabladid.is

þóra kristín ásgeirsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×