Innlent

Svindlað nánast óheft með olíu fyrir hundruð milljóna

Allt að 74 prósentum litaðrar olíu sem keypt er í sjálfsafgreiðslustöðvum er ekki dælt á vinnuvélar eins og til er ætlast. Þetta segir Jóhannes Jónsson, starfsmaður hjá Ríkisskattstjóra, að athuganir sýni. Olíunni sé dælt á önnur ökutæki og af þeim sökum verði ríkissjóður af á bilinu 160 til 230 milljónum króna árlega.

Á sama tíma er Ríkisskattstjóra óheimilt að nota upptökur úr eftirlitsmyndavélum bensínstöðva til að koma upp um þá sem kaupa gjaldfrjálsa vinnuvélaolíu á einkabíla sína. Persónuvernd segir Ríkis­skattstjóra skorta lagaheimild til þess.

Lituð olía kostar ríflega sextíu krónum minna hver lítri en venjuleg dísilolía sem ber olíugjald. Munurinn er því mikill og margir láta freistast. Á móti kemur að sektir eru háar ef upp kemst. Fyrir venjulegan fólksbíl er sektin 200 þúsund krónur, sem síðan tvöfaldast við ítrekuð brot.

Jóhannes segir að Ríkisskattstjóri hafi tvisvar á liðnu ári lagt til við fjármálaráðuneytið að þeir sem kaupi litaða olíu þurfi að fá útgefin sérstök viðskiptakort hjá olíufélögunum og skattayfirvöldum sé tilkynnt um þau. Þannig verði auðveldara að fylgjast með að farið sé að lögum. „Eftir því sem ég best veit hefur ráðuneytið ekki unnið úr þessu. Ég held að ágætis skilningur sé á þessu hjá ráðuneytinu en að það hafi haft mörgum öðrum hnöppum að hneppa að undanförnu," segir hann.

Ætlun Ríkisskattstjóra var að fá aðgang að eftirlitsmyndavélum á bensínstöðvum til að nota ásamt bókhaldsgögnum stöðvanna til að fletta ofan af svindlurunum. Persónuvernd segir Ríkis­skattstjóra hins vegar ekki hafa sömu heimild og lögregla til vinnslu persónuupplýsinga í þágu rannsóknar. „Það verður þá svo að vera," segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri um þessa niðurstöðu.

Jóhannes Jónsson skrifaði í fyrra í Tíund, blað Ríkis­skattstjóra, og setti fram áðurnefnda tilgátu um að 74 prósent af litaðri olíu í sjálfsölum væru keypt á bíla sem ekki hefðu til þess rétt. Var það byggt á gögnum frá olíufélögunum sem sýndu að í þessum fjölda tilvika hefði verið dælt minna en áttatíu lítrum í hverri afgreiðslu. „Einnig virðist vera ótrúlega algengt að verið sé að kaupa litaða olíu á kvöldin og á nóttunni og á dælum sem eru ekki í alfaraleið," skrifaði Jóhannes í fyrra og sagði ljóst að takmarka þyrfti verulega aðgengi að litaðri olíu. Það hefur enn ekki verið gert. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×