Innlent

Dæmdum nauðgara sleppt

Hæstiréttur Snéri úrskurði héraðsdóms við.
Hæstiréttur Snéri úrskurði héraðsdóms við.

Karlmanni, sem dæmdur var í sumar fyrir hrottalega nauðgun, var sleppt að gengnum dómi Hæstaréttar í gær. Hæstiréttur sneri þar með við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem úrskurðað hafði manninn í gæsluvarðhald þar til dómur í máli hans gengi í Hæstarétti, ekki þó lengur en til 22. desember.

Maðurinn var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í júlí í sumar fyrir að nauðga ölvaðri konu með hrottalegum hætti í húsasundi við Trönuhraun í Hafnarfirði. Hann áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar.

Konan sem fyrir árásinni varð var mjög illa leikin og hlaut fjölmarga alvarlega áverka á líkama og höfði. Eftir árásina greindi sálfræðingur hana þannig að hún hefði orðið fyrir áfalli og kynferðislegu ofbeldi. Henni hefði liðið mjög illa, verið mjög hrædd og sýnt mjög alvarleg streitueinkenni.

Í dómi Hæstaréttar segir að Ríkissaksóknari hafi þegar í júlí óskað eftir dómsgerðum í máli mannsins. Þær hafi ekki verið komnar að hálfum fjórða mánuði liðnum. Því hafi ekki verið hægt að dagsetja mál mannsins til munnlegs málflutnings í Hæstarétti. Drátturinn sé óhæfilegur og því ekki komist hjá því að fella gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms úr gildi. Hæstiréttur dæmdi manninn hins vegar í farbann til 22. desember.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×