Innlent

Löggan vill betri umgengni í miðborginni

Lögreglan hvetur fólk til að ganga betur um miðborgina svo ekki þurfi að blasa við sýn líkt og sjá má á myndinni hér að neðan en hún var tekin í miðborginni á sunnudagsmorgni.
Lögreglan hvetur fólk til að ganga betur um miðborgina svo ekki þurfi að blasa við sýn líkt og sjá má á myndinni hér að neðan en hún var tekin í miðborginni á sunnudagsmorgni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að ganga betur um miðborg Reykjavíkur því sérhvern morgun um helgar sópi hópar hreingerningarmanna upp drasl eftir fullorðið fólk sem átt hafi leið um miðborgina.

„Ásýnd svæðisins minnir meira á svínastíu en stræti og torg manna; hvarvetna brotnar flöskur og glös, tómar bjórdósir, pappa- og blaðarusl, ælur og hland í bland,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Lögreglan biður fólk vinsamlega um að bæta um betur, losa sig við ruslið í þar til gerðar fötur, nýta útisalerni og reyna í alla staði að ganga þannig um að til fyrirmyndar geti talist. Þá eru veitingamenn og dyraverðir minntir á að gestum er óheimilt að bera áfengi, til dæmis í glösum og flöskum, út af veitingastöðunum. Alvarlegir andlitsáverkar hafi hlotist af þegar þungum glerbjórglösum hafi verið kastað að fólki, auk þess sem brothljóðum, þegar glös lenda í veggjum og gangstéttum, fylgir mikið ónæði fyrir nálæga íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×