Innlent

Þúsunda mótmæli í Berlín: Íslendingur í hústöku

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Þúsunda mótmæli áttu sér stað í Berlín í dag.
Þúsunda mótmæli áttu sér stað í Berlín í dag.

Listfræðingurinn Símon Birgisson tók fyrr í dag þátt í hústöku stúdenta í Humboldt háskólanum í Berlín. Þúsundir námsmanna um gjörvallt Þýskaland skrópuðu í skólann í dag til að mótmæla meðal annars hækkun skólagjalda og hinu svokallaða BA og Masters kerfi.

„Þetta voru stór mótmæli og komu mér svolítið á óvart. Það eru semsagt háskólanemar að mótmæla hækkun skólagjalda. Skólagjöld hafa hækkað en aðstaðan aftur á móti aldrei verið verri," segir Símon Birgisson, leiklistarfræðingur sem búsettur er í Berlín. Honum varð hvelft við þegar þúsundir mótmælenda þustu út á stræti Berlínar með miklum látum. Þar voru á ferð stúdentar sem mótmæla hækkun skólagjalda og BA/Masters kerfinu svokallaða sem þeir segja að miði að því að flokka nemendur og senda þá í gegnum háskóla á eins stuttum tíma og mögulegt er. „Þeir vilja frekar svokallað diplomakerfi sem að gefur þér færi á að vera miklu lengur í háskóla."

Nemendur fóru sem fyrr segir í verkfall og mættu því ekki til kennslustunda í morgun. Í Humboldt háskólanum voru þó nokkrir nemendur sem höfðu ákveðið að mæta í skólann í dag. Mótmælendur brugðu því á það ráð að fara inn í skólann og sækja þá nemendur og Símon fór með. „Já ég ákvað að taka þátt í þessari hústöku með þeim," segir hann kíminn en ekki kom til átaka innan veggja skólans.

Símon segir að lögregla hafi verið með töluverðan viðbúnað en þó hafi ekki komið til átaka milli hennar og mótmælenda. Hann segir íslenska námsmenn mega taka sér þá þýsku til fyrirmyndar. „Það er búið að lækka námslánin og íslenskir námsmenn ættu heldur betur að geta mótmælt því. Það er kominn tími á að nemendur fari í verkfall í staðinn fyrir kennara," segir Símon.

Hann segist einna ánægðastur með að hafa þó fengið göngu í staðinn fyrir hátíðargönguna sem hann missti af á heimaslóðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×