Innlent

Kjallara stolið um helgina við Úlfarsfell

Þarna voru útveggirnir fyrir helgi en á mánudag greip Gunnar Ingi í tómt.
Þarna voru útveggirnir fyrir helgi en á mánudag greip Gunnar Ingi í tómt. Mynd/Valli

„Hvað sem allri spillingu líður þá er þetta örugglega stærsti þjófnaður ársins, alla vega í kílóum talið," segir Gunnar Ingi Arnarsson en hann komst að því á mánudagskvöld að búið var að stela af honum og félaga hans byggingareiningum sem áttu að verða útveggir á kjallara parhúss sem þeir eru að reisa í Úlfarsárdal.

Veggirnir voru á fjórum rekkum sem hver um sig vegur 25 tonn þannig að þjófarnir höfðu á brott með sér 100 tonn. Alls nemur tjónið um sjö milljónum króna. Hann segir að íbúi í Úlfarsárdal hafi séð rekkana fulla á fimmtudag og telur Gunnar Ingi líklegast að þjófarnir hafi látið greipar sópa á föstudagskvöld eða á laugardag.

„Lögreglan ætlaði ekki að trúa mér þegar ég tilkynnti þetta enda kannski ekki mikið um það að heilli hæð sé stolið af fólki," segir hann. „Það sem er líka undarlegt í þessu er að það þarf sérstakir einingavagna til að taka þessa rekka í burtu og það eru ekki margir sem búa yfir slíkum tækjum," segir Gunnar Ingi. Hann segir ljóst að þjófarnir hafi þurft að gefa sér góðan tíma til verksins því um hálftíma til þrjú korter taki að fjarlægja hvern rekka. „Þetta tæki því heilan dag ef hver rekki er tekinn, ferjaður og síðan komið eftir þeim næsta," segir hann.

Gunnar Ingi og Arinbjörn Marinósson, sem reisir parhúsið á móti honum, hafa steypt sökkla og var ráðgert að gera kjallarann tilbúinn í sumar.

Hann vonast til þess að einhverjir getið gefið upplýsingar um ferðir stórra flutningatækja með rekka í Úlfarsfellinu um síðustu helgi svo lögreglan hafi meiri upplýsingar til að vinna úr. „Ég er búinn að skanna allt höfuðborgarsvæðið sjálfur og fann á einum stað einingar þannig að það er ekki mikið um þetta um þessar mundir," segir hann.

Hann segist ekki vita hvað menn hyggist fyrir með einingarnar en þær eru sérhannaðar fyrir parhús þeirra félaga sem hafi verið samþykkt af byggingarfulltrúa. „Þannig að það er ekki hlaupið að því að setja þetta upp einhvers staðar annars staðar nema þá með því að svindla eitthvað."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×