Enski boltinn

James setur met í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David James og Hermann Hreiðarsson ræða hér málin við knattspyrnudómara.
David James og Hermann Hreiðarsson ræða hér málin við knattspyrnudómara. Nordic Photos / Getty Images
David James, markvörður Portsmouth, mun setja met í dag er hann mætir sínum gömlu félögum í Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta er eini leikur dagsins í ensku úrvalsdeildinni og hefst hann klukkan 15.00. Það eru hins vegar einnig leikið í ensku bikarkeppninni í dag.

Gary Speed átti gamla metið en hann hefur á sínum ferli leikið 535 úrvalsdeildarleiki á ferlinum með Leeds, Everton, Newcastle og Bolton. Hann er enn að en leikur nú í ensku B-deildinni með Sheffield United.

Speed verður fertugur á árinu en David James mun halda upp á 39 ára afmæli sitt í sumar. James jafnaði met Speed um síðustu helgi er Portsmouth tapaði fyrir Liverpool en þá lék hann sinn 535. úrvalsdeildarleik á ferlinum. Og hann getur bætt metið í dag.

James hefur á sínum ferli leikið með Liverpool, Aston Villa, West Ham, Manchester City og Portsmouth.

Ryan Giggs er auk hinna tveggja eini maðurinn sem á fleiri en 500 leiki að baki í ensku úrvalsdeildinni. Giggs hefur leikið 513 slíka leiki á ferlinum.

Ef litið er yfir lista tíu leikjahæstu leikmanna í sögu ensku úrvalsdeildarinnar er ljóst að tveir menn gera atlögu að metinu. Þeir Emile Heskey og Frank Lampard eru báðir fæddir árið 1978 og eru því átta árum yngri en James. Þá vantar þó ekki nema rétt rúma 100 leiki til að ná í James. Heskey hefur leikið 427 úrvalsdeildarleiki og Lampard 420.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×